Abstract

Mat á námi barna, sem á sér stað í leik þeirra og athöfnum, er mikilvægt fyrir leikskólakennara, annað starfsfólk, foreldra og börnin sjálf til að auka þekkingu og skilning á þroska þeirra, námi þeirra og líðan. Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 er lögð áhersla á að námsmat eigi að vera reglubundinn þáttur í skólastarfi og er leikskólum ætlað að þróa fjölbreyttar aðferðir við að meta nám og vellíðan barna. Rannsóknin, sem hér er fjallað um, var samstarfsrannsókn (e. collaborative action research) og fór fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hún var hluti af samstarfsverkefni RannUng og fimm leikskóla víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Rannsóknin bar vinnuheitið Mat á námi og vellíðan barna. Markmið verkefnisins var að styðja þátttakendur í að þróa aðferðir til að meta nám og vellíðan barna í leikskóla. Í leikskólanum sem þessi rannsókn sneri að var valið að þróa og bæta vinnu með námssögur sem matsaðferð. Þátttakendur voru starfsmenn einnar deildar í þriggja deilda leikskóla á höfuðborgarsvæðinu ásamt leikskólastjóranum. Börnin á deildinni voru nítján á aldrinum 2ja-3ja ára. Á deildinni störfuðu tveir leikskólakennarar og tveir leiðbeinendur en auk þeirra tóku þátt í rannsókninni sérfræðingur frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands ásamt meistaranema, sem var tengiliður hópsins og sá um að safna, skrá og halda utan um gögnin sem aflað var. Gögnum var safnað með viðtölum við þátttakendur í leikskólanum við upphaf og lok verkefnisins, með skráningu á fundum, dagbókaskrifum, vettvangsathugunum, ljósmyndum og skráðum heimildum eins og skólanámskrá og ferilmöppum. Niðurstöður sýna að þátttakendur hafi þróað og eflt færni sína í skráningu námssagna. Með námssögunum tókst þeim að vekja áhuga foreldra á því sem börnin fengust við í leikskólanum og fengu jafnframt upplýsingar um reynslu barnanna utan leikskólans þar sem foreldrar tóku einnig þátt í skráningum. Börnin fengu tækifæri í leikskólanum til að skoða og tjá sig um námssögur sem starfsmenn og foreldrar höfðu skráð. Þrátt fyrir að þátttakendur hafi talið námssögur góðar til að draga fram styrkleika barnanna þá töldu þeir þurfa annars konar skráningar til að ná utan um og fylgjast með þroskaþáttum barna.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call