Abstract

Grein þessi fjallar um samstarfsrannsókn (e. collaborative action research) sem unnin var í samstarfi RannUng (Rannsóknarstofu í menntunarfræði ungra barna) og fimm leikskóla í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þessarar samstarfsrannsóknar var að þróa leiðir til að meta nám og vellíðan barna í þátttökuleikskólunum, í samræmi við áherslur í Aðalnámskrá leikskóla 2011. Tilgangurinn var að leikskólakennarar og leiðbeinendur í leikskólunum þróuðu matsaðferðir sem jafnframt endurspegluðu þau viðhorf til náms sem byggt er á í leikskólastarfinu. Rannsóknin var skipulögð með samstarfsrannsóknarsniði, þar sem þátttakendur í hverjum leikskóla völdu og mótuðu matsaðferðir út frá meginmarkmiðum leikskólastarfsins í samstarfi við háskólakennara og meistaranema frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands sem studdu við ferlið og héldu utan um rannsóknir og kynningu á verkefninu. Niðurstöður leiddu í ljós að misræmi var á viðhorfum þátttakenda til náms og þeirra matsaðferða sem stuðst var við í leikskólunum. Megináhersla í leikskólastarfinu var á félagsfærni, vellíðan og sköpun barna en við mat á námi hafði verið lögð áhersla á að meta þroskaþætti svo sem varðandi málþroska og hljóðkerfisvitund. Í ljósi þess að aðstæður í leikskólunum voru misjafnar og þær leiðir sem þátttakendur völdu til að ná markmiðum í hverjum leikskóla voru ólíkar má segja að lærdómur í hverjum leikskóla beri þess merki. Í öllum leikskólunum mátti greina viðhorfsbreytingu hjá leikskólakennurum en sérstaklega hjá leiðbeinendum. Breytingin birtist í að með því að skrá það sem fram fór beindu leikskólakennarar og leiðbeinendur athygli sinni meira að áhuga barnanna og sjónarmið þeirra urðu sýnilegri í leikskólastarfinu. Þróun skráninga sem nýta mátti í mati á námi og vellíðan barna komst vel á veg í nokkrum leikskólanna. Mikilvægur þáttur námssöguskráninga felst í ígrundun, en þann þátt hefðu flestir þátttakendur í þessari rannsókn mátt þróa betur. Tveir leikskólanna nýttu stafræna tækni meira en aðrir og þátttakendur í þeim leikskólum létu vel af því. Ekki virtist þó sem tæknin veitti meira svigrúm til ígrundunar. Skráningarnar voru gjarnan, en þó mismikið, nýttar til breytinga með það að markmiði að styðja betur við áhuga, nám og styrkleika barna, en þær reyndust sjaldan nýttar til ígrundunar með börnunum.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call