Abstract

Brotthvarf menntaðra lögreglumanna úr starfi er langt frá því að vera sér íslenskt vandamál. Rannsóknir hafa verið framkvæmdar á viðfangsefninu víða erlendis en þrátt fyrir að fjöldi lögreglumanna hafi sagt sjálfviljugir upp störfum hérlendis er brotthvarfið að mestu leyti órannsakað. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvaða ástæður búa að baki brotthvarfi menntaðra lögreglumanna úr starfi á árunum 2007 – 2022 og kanna hvað sé til ráða til þess að styrkja mannauð stéttarinnar. Rannsóknin byggir á viðtölum við sextán fyrrum lögreglumenn. Einnig voru tekin viðtöl við þrjá starfandi stjórnendur úr æðstu starfsstigum lögreglunnar, til þess að innsýn stjórnenda og meiri dýpt í rannsóknina. Þrátt fyrir ólíkar upplifanir og reynslu viðmælenda þá stóðu fjórir megin áhrifaþættir fyrir brotthvarfinu upp úr: stjórnunarhættir, starfsánægja, starfsumhverfi og álag og streita. Af framangreindum þáttum vógu stjórnunartengdir þættir þyngst, þar lýstu viðmælendur ófaglegum stjórnunarháttum, samskiptaörðugleikum, ríkjandi óréttlæti, ófaglegum ráðningum og takmörkuðum tækifærum til þróunar í starfi. Starfsandinn var sagður neikvæður og einkennast af fordómum, baknagi og kjaftagangi sem leiddi til dvínandi starfsánægju. Aðrir lýstu því hvernig neikvætt starfsumhverfi hafi haft áhrif á brotthvarf úr starfi. Þá kom skýrt fram hjá öllum viðmælendum að stjórnun þyrfti að bæta verulega innan lögreglunnar ef halda ætti í gott starfsfólk og bæta mannauðinn. Niðurstöður benda jafnframt til þess að stjórnendur lögreglunnar séu meðvitaðir um þær ástæður sem búa að baki brotthvarfsins en lítið hefur verið aðhafst til þess að sporna við því.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call