Í lok júní árið 2004 bauð Íbúðalánasjóður eigendum hús‐ og húsnæðisbréfa að skipta þeim út fyrir ný skuldabréf, svokölluð íbúðabréf. Deutsche Bank London AG var aðalráðgjafi sjóðsins við skiptiútboðið og ráðlagði sjóðnum meðal annars um ákvörðun skiptaverðsins. Skiptaverð hús‐ og húsnæðisbréfa í útboðinu átti að ákvarðast af ávöxtunarkröfu þeirra á markaði og ávöxtunarkrafa íbúðabréfanna átti að ákvarðast af ávöxtunarkröfu húsnæðisbréfa með sérstöku frádragi þannig að skiptaverð þeirra væri hærra en húsnæðisbréfanna. Skiptaverðið í útboðinu var ekki í samræmi við þessar fyrirætlanir Íbúðalánasjóðs; verð húsbréfanna var of hátt og íbúðabréfanna of lágt. Sjóðurinn keypti því útistandandi bréf á of háu verði og seldi nýju skuldabréfin á of lágu verði. Með því að endurskapa skiptaverðið sem Íbúðalánasjóður bauð í útboðinu eru færð rök fyrir því að sjóðurinn eða ráðgjafar hans hafi gert mistök við ákvörðun sína sem fólust í fjórum villum. Þrjár þeirra höfðu lítil sem engin áhrif á endanleg skiptihlutföll í útboðinu en ein þeirra hafði talsverð áhrif og kostaði sjóðinn um 1,5 milljarða kr. á verðlagi ársins 2004. Sú villa fólst í því að bera saman ávöxtunarkröfu tveggja skuldabréfa sem reiknuð var miðað við mismunandi vaxtaform; ávöxtunarkrafa húsnæðisbréfa var reiknuð miðað við árlega vaxtavexti en ávöxtunarkrafa íbúðabréfa miðað við hálfsárslega vaxtavexti. Mistökin má hugsanlega rekja til þess að mismunandi venjur eru varðandi framsetningu ávöxtunarkröfu skuldabréfa á íslenskum skuldabréfamarkaði annars vegar og sumum evrópskum mörkuðum hins vegar.
Read full abstract