Á Íslandi hefur það gjarnan verið trú fólks að félagslegur og efnahagslegur jöfnuður einkenni þjóðina og að hvers konar elítur séu lítt áberandi. Engu að síður eru vísbendingar um að elítur séu til staðar, og ennfremur að þær séu styrkjast og ójöfnuður að aukast. Markmið greinarinnar er að greina viðskiptaog atvinnulífselítuna á Íslandi árin 2014 og 2015 út frá tengslum hennar við aðrar elítur sem og innbyrðis tengslum. Slík greining gefur vísbendingar um hversu opin elítan er, tengsl hennar við almenning, og um lýðræðislega uppbyggingu hópsins. Byggt er á tveimur gagnasöfnum; Vald og lýðræði – elíturannsókn og Kynjajafnrétti við stjórn atvinnulífsins: stefna, þróun og áhrif. Til að fá myndræna sýn á innbyrðis tengsl elítuflokka var notast við hugbúnaðarpakkann igraph fyrir R. Niðurstöðurnar sýna talsverð innbyrðis tengsl á milli einstaklinga sem mynda viðskipta- og atvinnulífselítuna. Einsleitni í búsetu, mælt í póstnúmerum er sterk, einkum meðal karla og þeirra sem eldri eru. Búsetueinsleitni þeirra sem eru í forystuhlutverki stjórnmálanna er fjórum sinnum meiri en þeirra sem ekki taka þátt í slíku starfi. Svipað mynstur sést þegar tengslin við íþróttahreyfinguna eru skoðuð; eftir því sem þátttaka einstaklings í íþróttastarfi er meiri, þeim mun meiri er búsetueinsleitnin. Niðurstöðurnar benda til þess að íslenska þjóðfélagið sé lagskipt og að tiltekin gjá sé á milli elítunnar og almennings. Það gefur til kynna að mikilvægt sé að huga að því hversu lýðræðisleg uppbygging hópsins er og hvort hætta sé á að einsleitni í ákvarðanatöku verði of mikil.
Read full abstract