Abstract
Hér er greint frá starfendarannsókn um þróun rafrænna ferilbóka í sjónlistum á unglingastigi sem fór fram skólaárið 2017–2018. Tilgangurinn var að efla nám með því að skapa sameiginlega sýn og samábyrgð nemenda og kennara og stuðla að aukinni einstaklingsmiðun. Innleiddar voru ferilbækur sem tilraun til þess að stuðla að fyrrnefndum þáttum. Markmiðið var að ég sem kennari lærði af eigin vinnu og mótaði starfshætti þar sem nemendum eru gefin aukin tækifæri til þess að takast á við námið á eigin forsendum. Rannsóknarspurningin sem lagt var upp með var: Hvernig má nota rafrænar ferilbækur til þess að auka einstaklingsmiðun í sjónlistakennslu? Gagnaöflun var margþætt og fólst í skráningum í rannsóknardagbók, samtölum í umræðuhópum nemenda og rýniviðtölum við úrtak úr nemendahópnum, rafrænni könnun meðal nemenda og mati á rafrænum ferilbókum þeirra. Niðurstöður benda til þess að rafrænar ferilbækur hafi haft margþættan ávinning, bæði fyrir nemendur mína og mig sem kennara. Þær reyndust vera leið til þess að auka einstaklingsmiðun í kennslu minni í sjónlistum og þær gáfu nemendum aukna yfirsýn á nám sitt. Einnig sýndu niðurstöður að ferilbækur voru vettvangur til ígrundunar þegar markvissum námsstuðningi var beitt. Rafrænar ferilbækur reyndust einnig vera leið til þess að veita mér sem kennara aukna yfirsýn á nám og framför nemenda.
Published Version (Free)
Talk to us
Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have