Samfara aukinni valddreifingu í íslensku skólastarfi hefur umfang starfs skólastjóra grunnskóla aukist verulega. Í skólastjórn felst bæði stjórnun og fagleg forysta en skólastjóra er fengið það hlutverk samkvæmt lögum að móta stjórnskipan síns skóla og skipta verkum á milli kennara og stjórnenda. Sjónir fræðimanna hafa í vaxandi mæli beinst að hlut skólastjóra í að bæta námsárangur en sýnt hefur verið fram á að skýr tengsl eru á milli faglegrar forystu skólastjóra og árangurs nemenda. Með kjarasamningum 2001 var samið um störf aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra í þeim tilgangi að efla kennslufræðilega forystu í grunnskólunum og fjölgaði stjórnendunum talsvert fram til ársins 2008. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hverjar væru starfsaðstæður og bakgrunnur skólastjóra og hvaða viðfangsefni hann kysi sjálfur að axla í stjórnkerfi skólans. Gagna var aflað með rafrænni spurningakönnun sem send var öllum stjórnendum í grunnskólum með meira en 100 nemendur. Niðurstöður sýna að skólastjórar grunnskóla hafa umtalsverða starfsreynslu og mikill meirihluti þeirra hefur lokið framhaldsnámi í stjórnun. Þrátt fyrir viðleitni til að binda skólana saman sem faglegar stofnanir virðast þeir enn vera talsvert laustengdir. Tilhögun stjórnkerfis skólanna er óljós og hefur í för með sér ákveðin einkenni óreiðu fremur en fagveldis. Hlutverk aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra eru óljóst skilgreind en algengast er að skólastjóri gegni sjálfur hlutverkum stjórnenda. Hinum mikilvægu faglegu forystuhlutverkum er skipt með óljósum hætti milli stjórnenda og oftar en ekki er vísað til ábyrgðar stjórnendateymis. Benda niðurstöður til þess að áform kjarasamnings árið 2001 um að efla kennslufræðilega forystu í grunnskólum hafi ekki gengið eftir.
Read full abstract