Abstract

Umfjöllun um kynbundið ofbeldi hefur farið hátt síðustu ár en það er meginefni Ritsins þessu sinni. Með sífellt fleiri frásögnum af raunverulegu ofbeldi og áreiti – og skáldskap sem fæst við kynbundið ofbeldi og byggir jafnvel á raunverulegum atburðum – hafa menn ekki aðeins orðið meðvitaðri en fyrr um kynbundið valdamunstur sem viðgengst í tilteknu félagslegu samhengi samtímans (jafnt þröngu sem víðu) og orðið gagnrýnni en áður á ýmis lög, dóma og fyrningarákvæði; Þeir eru teknir að skoða kynbundið ofbeldi í tengslum við annað ofbeldi sem fyrr hefði naumast verið tengt því; farnir að greina það á fortíðarsviðum þar sem því hefur lítt eða ekki verið veitt eftirtekt fyrr og teknir að leggja markvisst niður fyrir sér staðlaða, ósjálfráða og menningarbundna hugsun sem lýsir af máli. Rannsóknarefni og aðferðir þeirra höfunda sem hér skrifa eru innbyrðis afar ólík. Í hugvísindum spanna greinarnar vítt svið, frá síðmiðöldum til samtímans. Ingibjörg Eyþórsdóttir skrifar um kynbundið ofbeldi í sagnadönsum og hvernig þeir voru notaðir til að koma mikilvægum upplýsingum á milli kynslóða kvenna. Bókmenntagreining Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur og Guðna Elíssonar annars vegar og Björns Þórs Vilhjálmssonar hins vegar tekur mið af raunverulegum frásögnum af ofbeldi sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi og hvernig unnið er með það í skáldskap. Alda Björk og Guðni fjalla um ljóðabókina Drápu eftir Gerði Kristnýju en Björn Þór um skáldsöguna Kötu eftir Steinar Braga. Af sviði sálfræðinnar skrifar Rannveig Sigurvinsdóttir um rannsókn sem hún gerði á birtingarmyndum kynferðisofbeldis í frásögnum kvenna á netinu (sem komu fram árin 2015–2017 á Facebook og Twitter), og tók þá mið af réttlætingum gerenda og þolenda. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði og Þórhildur Sæmundsdóttir kynjafræðingur og meistaranemi í lögfræði greina niðurstöður Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum eftir breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna 1992 og 2007. Þær greina þrástef og mynstur í orðræðunni, og hvort og þá hvernig samfélagsleg staða kvenna birtist í niðurstöðum dómstólanna. Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur skoðar sögu nafnorðanna gleðimaður og gleðikona og veltir meðal annars fyrir sér mismunandi merkingu þeirra og eðli málbreytinga sem gleði-orð hafa orðið fyrir. Óritrýndar greinar innan þema eru tvær en báðar eru eftir rithöfunda. Hallgrímur Helgason ræðir eigin upplifun af neikvæðum viðbrögðum annarra gagnvart nauðgunarlýsingu sem hann skrifaði um í bókinni Sjóveikur í München, sem byggir á eigin reynslu. Grein Margaret Atwood er þýðing heftisins en hún fjallar um afstöðu rithöfundarins og vangaveltur um atburði sem áttu sér stað í kanadískum háskóla fyrir fáeinum árum.

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call

Disclaimer: All third-party content on this website/platform is and will remain the property of their respective owners and is provided on "as is" basis without any warranties, express or implied. Use of third-party content does not indicate any affiliation, sponsorship with or endorsement by them. Any references to third-party content is to identify the corresponding services and shall be considered fair use under The CopyrightLaw.