Abstract

Ein leið til að sinna mannkostamenntun er að lesa bókmenntir og greina og ræða mannkosti í þeim með nemendum. Í þessari grein er fjallað um forsendur þess að nota Íslendingasögur til mannkostamenntunar með nemendum á unglingsaldri. Rætt er um mikilvægi dygða fyrir mannkostamenntun, áherslu hennar á siðferðilegar dygðir og almenn tengsl dygða og siðferðis. Þá er fjallað um þær aðstæður í bókmenntum þar sem dygðir (eða lestir) birtast en þær eru hér kallaðar dygðaaðstæður. Rökstutt er að ekki sé erfitt að finna slíkar aðstæður í Íslendingasögum. Í ljósi tengslanna á milli dygða og siðferðis er jafnframt fjallað um siðferði Íslendingasagna og hvernig fræðileg umræða um það efni getur haft áhrif á mannkostamenntun. Auk þess er velt upp þeirri spurningu hvort það siðferði sem viðgekkst á tímum Íslendingasagnanna sé sama siðferðið og er viðtekið nú til dags. Stigskipt þroskalíkan Gilligan er notað til að staðsetja siðferðilegan veruleika Íslendingasagna gagnvart nútímasiðferði. Með hjálp þroskalíkansins má einnig bregðast betur við þeirri spurningu hvort hægt sé að nota sögu þar sem siðferði persóna er ef til vill ekki til fyrirmyndar til að efla siðferði nemenda. Með því að nota þroskalíkanið er samtímis hægt að skoða einkenni þeirrar siðferðilegu hugsunar sem stefna má að í mannkostamenntun með unglingum.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call