Abstract

Rannsóknin byggir á gögnum úr starfendarannsókn sem unnin var í samstarfi við sjö leikskólakennara á höfuðborgarsvæðinu og stóð yfir í 24 mánuði. Markmiðið var að kanna viðhorf leikskólakennaranna til gilda og gildamenntunar (e. values education) og skoða hvernig þeir miðla gildum til leikskólabarna. Hér verður leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1) Hvaða gildi telja leikskólakennarar mikilvægast að miðla til leikskólabarna og hvers vegna? 2) Hvernig líta leikskólakennarar á eigið hlutverk í gildamenntun? 3) Hvernig miðla leikskólakennarar gildum til barna?Í rannsókninni er stuðst við skilgreiningu Halstead og Taylor (2000) um að gildi séu eins konar reglur og grundvallarsannfæring sem leiðbeina fólki varðandi hegðun. Litið er svo á að gildi fólks birtist bæði í huga þess og athöfnum (Hitlin og Piliavin, 2004; Tappan, 2006).Stuðst er við félagsmenningarlegt viðhorf til náms (e. sociocultural perspective) þar sem litið er á að nám sé óaðskiljanlegt frá því félagslega samhengi sem það fer fram í (Säljö, 2005; Vygotsky, 1978). Kenning Habermas um samskipti (e. theory of communicative action) var nýtt til þess að greina hvernig kennarar miðla gildum. Habermas taldi að nám færi að mestu fram í gegnum samskipti og lagði áherslu á að þess vegna ætti að leggja meiri áherslu á samskipti í menntun barna, þar sem börnin væru virkir þátttakendur (Edgar, 2006; Habermas, 1995).Niðurstöðurnar sýna að leikskólakennararnir sem tóku þátt í rannsókninni völdu að leggja áherslu á umhyggju, virðingu og aga. Þessi þrjú gildi voru valin vegna þess að þau voru talin styðja við félagsfærni barnanna. Leikskólakennararnir töldu sitt hlutverk í gildamenntun einkum felast í að vera góðar fyrirmyndir en einnig kom fram að mikilvægt væri að nota orð og hugtök sem börnin skildu yfir þau gildi sem ætti að leggja áherslu á. Gildamenntun var frekar dulin í starfinu í upphafi, en varð skýrari þegar leið á starfendarannsóknina.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call