Abstract
Millistjórnendur eru í krefjandi hlutverki og upplifa sig oft eins og milli steins og sleggju. Þeir gegna þungavigtarhlutverki en störf þeirra einkennast af miklu vinnuálagi og streitu. Þó hafa þeir fengið fremur litla athygli í stjórnendafræðum, einkum innan heilbrigðisþjónustunnar. Við vitum til dæmis lítið um áhrif þessa krefjandi starfs á heilsu þeirra, til dæmis hvort streituvaldandi þættir í starfsumhverfinu tengjast stoðkerfisverkjum og svefni. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða þessi tengsl. Um er að ræða lýsandi þversniðsrannsókn þar sem gögnum var safnað með forprófuðum spurningalista sem sendur var rafrænt á 137 hjúkrunardeildarstjóra í gegnum Outcome-kannanakerfið. Svarhlutfall var 80,9%. Lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði var notuð við úrvinnslu gagna. Niðurstöður sýndu skýr tengsl streituvaldandi þátta í starfsumhverfi, stoðkerfisverkja og ófullnægjandi svefns eftir að stjórnað var fyrir áhrifum af aldri, hjúskaparstöðu og fjölda stöðugilda í hjúkrun á deild. Streituvaldandi þættir í starfsumhverfinu og svefn höfðu tengsl við styrkleika stoðkerfisverkja á hálssvæði og herðum og svefn hafði tengsl við styrkleika verkja í neðri hluta baks. Meiri streita þýddi meiri stoðkerfisverki á hálssvæði og í herðum að teknu tilliti til svefns. Ófullnægjandi svefn þýddi aftur meiri stoðkerfisverki frá öllum þremur líkamssvæðunum að teknu tilliti til streituvaldandi þátta. Saman skýrðu streituvaldandi þættir í starfsumhverfinu og ófullnægjandi svefn, að teknu tilliti til aldurs, hjúskaparstöðu og fjölda stöðugilda við hjúkrun á deild, 17% af heildarbreytileika í styrkleika stoðkerfisverkja á hálssvæði, 21% í herðum og 14% í neðri hluta baks. Fram kom marktæk samvirkni milli streituvaldandi þátta í starfsumhverfinu og svefns varðandi styrkleika stoðkerfisverkja á hálssvæði. Niðurstöður þessarar rannsóknar verða vonandi til þess að hugað verði betur að streituvaldandi þáttum í starfsumhverfi millistjórnenda svefni og stoðkerfisverkjum þeirra.
Talk to us
Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have
Disclaimer: All third-party content on this website/platform is and will remain the property of their respective owners and is provided on "as is" basis without any warranties, express or implied. Use of third-party content does not indicate any affiliation, sponsorship with or endorsement by them. Any references to third-party content is to identify the corresponding services and shall be considered fair use under The CopyrightLaw.