Abstract

Stefnan um skóla án aðgreiningar (e. inclusive education) hefur fengið mikla umfjöllun á undanförnum árum og ríkir óvissa um hvernig skuli innleiða hana svo vel takist til. Lykilhugtök stefnunnar eru vönduð menntun allra, fullgild þátttaka, jafngild tækifæri og lýðræðisleg gildi. Misvísandi hugmyndir um stefnuna geta haft áhrif á viðhorf og skilning kennara. Brýn nauðsyn er þess vegna að skilgreina hugtakið og skapa því sameiginlegan þekkingarfræðilegan grundvöll innan skóla og utan. Greina má gjá (e. gap) í fræðunum þar sem ekki hefur tekist að samræma námsmat og skóla án aðgreiningar. Námsmat er yfirgripsmikið hugtak en einn megintilgangur þess er að leiðbeina nemendum og örva þá í námi, vera þeim hvatning og stuðla að námsvitund þeirra. Vandað námsmat getur aukið þátttöku allra nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi og haft jákvæð áhrif á vaxtarsjálf (e. growth mindset) þeirra. Greininni er ætlað að skapa umræður í skólasamfélaginu um hvernig efla má skilning á málefninu.Rannsóknin var viðtalsrannsókn og fór fram í fjórum grunnskólum í Kópavogi. Þátttakendur voru fimm grunnskólakennarar. Markmið hennar var að kanna hvernig námsmati umsjónarkennarar á yngsta stigi beita í skólum án aðgreiningar. Einnig voru stefnuskjöl sveitarfélagsins og grunnskóla þess greind.Niðurstöður benda til þess að kennarar hafi jákvæð viðhorf til menntastefnunnar en telji aftur á móti að aukið fjármagn þurfi til þess að auka skilvirkni hennar. Þátttakendur reyndust sýna góðan skilning á inntaki stefnunnar og kennsluhættir þeirra einkenndust af því að reyna að koma til móts við alla nemendur með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Ósamræmi í starfsháttum þeirra innbyrðis kom þó fram, einkum með tilliti til þess hvar nemendur með sérþarfir voru staðsettir innan skóla og óvissa var um hver bæri ábyrgð á námi þeirra. Þátttakendur reyndust meðvitaðir um mikilvægi fjölbreytts námsmats og beittu hefðbundnu og óhefðbundnu mati jöfnum höndum. Greina mátti misskilning þegar tilgang leiðsagnarmats bar á góma varðandi hvernig slíkt mat birtist í framkvæmd og víðtæk áhrif þess á nám.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call