Abstract
Málþing var haldið árið 1959 í Royaumont, Frakklandi, um nýja hugsun um skólastærðfræði. Royaumont-málþingið olli nokkrum straumhvörfum í hugsun um skólastærðfræði og rannsóknum á því sviði. Nýjar hugmyndir um skólastærðfræði, sem ræddar voru þar, voru nefndar nýja stærðfræðin, New Math, og tengdust hreyfingu, kenndri við Bourbaki, um endurskoðun á framsetningu stærðfræði með nútímalegum hætti, mathematique moderne. Í kjölfar málþingsins var tekið upp norrænt samstarf um greiningu á stöðu stærðfræðimenntunar á Norðurlöndum, námskrárgerð og samningu kennslubóka í tilraunaskyni. Stofnuð var nefnd, Nordiska kommittén för modernisering av matematikundervisningen, NKMM, sem stóð fyrir vinnu að verkinu á árunum 1960–1967. Megináhersla norrænu nefndarinnar var á námsefni fyrir 7 –12. bekk og ætlunin var að efnið yrði hægt að þýða og staðfæra í hverju landi fyrir sig. Einnig voru ráðnir sérfræðingar um námsefni 1.–6. bekkjar. Danskur höfundur, Agnete Bundgaard, og finnsk samstarfskona hennar, Eeva Kyttä, voru ráðnar til að rita kennslubókaflokk fyrir tvö fyrstu árin frá sjö ára aldri og Agnete Bundgaard ritaði ein kennslubækur fyrir næstu fjögur aldursstig. Flokkurinn var þýddur á íslensku frá og með 1966.Kennslubókaflokkur þessi, sem oft er nefndur Bundgaard-námsefnið, er greindur með tilliti til tillagna, sem settar voru fram á Royaumont-málþinginu um námsefni í stærðfræði fyrir barnaskóla, og borinn saman við eldra og yngra námsefni.Niðurstöður sýna að áhrif tillagna, sem kynntar voru á málþinginu, um að leggja áherslu á formgerð talnakerfisins og setja efnið fram með hjálp mengjafræðilegra hugtaka, voru mikil en dvínuðu smám saman í síðari kennslubókum. Framsetning á tölum og talnakerfi byggðum á frumtölum og deilanleika gekk í endurnýjun lífdaga í íslenskri skólastærðfræði, ásamt nálgun (e. approximation) og mati (e. estimation). Enn fremur komu síðar fram nýir efnisþættir sem ræddir voru í Royaumont, til dæmis tölfræði og líkindareikningur.
Talk to us
Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have
Disclaimer: All third-party content on this website/platform is and will remain the property of their respective owners and is provided on "as is" basis without any warranties, express or implied. Use of third-party content does not indicate any affiliation, sponsorship with or endorsement by them. Any references to third-party content is to identify the corresponding services and shall be considered fair use under The CopyrightLaw.