Abstract

Kennarar og starfsfólk skóla þurfa að ná til fjölbreytts hóps barna og styðja við nám, hegðun og líðan hvers og eins. Mikilvægt er að samskipti kennara og nemenda séu farsæl og þar skiptir bekkjarstjórnun miklu máli. Árangursrík bekkjarstjórnun eykur gæði kennslu og námsástundun og stuðlar auk þess að bættri líðan kennara og nemenda. Ef hún er ómarkviss getur það hins vegar valdið álagi og streitu, bæði fyrir nemendur og kennara. Þessi rannsókn fjallar um mat starfandi grunnskólakennara á námskeiði í gagnreyndum bekkjarstjórnunaraðferðum fyrir starfsfólk skóla, sem meðal annars voru sóttar í smiðju PMTO-foreldrafærni og SMT-skólafærni. Hagkvæmni og gagnsemi aðferðanna var metin; hvort það að takast markvisst á við að efla eigin bekkjarstjórnun og stuðning við félagsfærni nemenda nýttist starfandi grunnskólakennurum. Áhersla var lögð á að kanna sýn kennaranna á aðferðir sem þeir lærðu á námskeiðinu og nýttu svo á vettvangi með nemendum sínum, svo sem gagnsemi þeirra og hvort og hvaða aðferðir þeir sæju fyrir sér að nota áfram. Þátttakendur, alls ellefu talsins, voru starfandi grunnskólakennarar sem luku námskeiðinu og mátu afrakstur þess. Blönduðum rannsóknaraðferðum var beitt, meðal annars spurningalistum og mati á mætingu og þátttöku. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl við tvo mismunandi undirhópa þátttakenda. Samhljómur var um að það sem þátttakendur lærðu á námskeiðinu hefði borið árangur og að þeir myndu halda áfram að nýta aðferðirnar á vettvangi. Þá töldu þátttakendur þjálfun sem þessa nauðsynlega fyrir kennara, sérstaklega nýliða í stéttinni. Niðurstöður samræmast fyrri íslenskum rannsóknum á þessu sviði og benda til þess að þörf sé fyrir og áhugi á þjálfun í bekkjarstjórnun meðal kennara og starfsfólks skóla hérlendis. Fjallað er almennt um aðferðirnar og mikilvægi þeirra fyrir aðlögun nemenda og kennara.

Full Text
Published version (Free)

Talk to us

Join us for a 30 min session where you can share your feedback and ask us any queries you have

Schedule a call